Skráning fjölda gesta á ferðamannastöðum
Við gerð skipulagsáætlana á ferðamannasvæðum hefur starfsfólk TGJ – Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur fundið mjög fyrir skorti á áreiðanlegum upplýsingum um fjölda gesta á viðkomandi svæðum og dreifingu þeirra í tíma. Þar sem hér er um að ræða eina veigamestu forsendu skipulagsgerðar fyrir ferðamannasvæði, er hætt við að skipulagsgerð og áætlanagerð verði ómarkvissari fyrir vikið, og ráðstöfun tíma og fjármuna lakari.
Til að bregðast við þessu hefur TGJ, í samstarfi við PRS-ráðgjöf, unnið að þróun aðferða sem miða að því að skrá fjölda gesta á hinum ýmsu stöðum víðsvegar um land, greina þarfir viðkomandi svæða og móta forsendur varðandi skipulagsgerð.
TGJ ætlar að bjóða sveitarfélögum, stofnunum, félögum og einstaklingum upp á þjónustu sem felur í sér sjálfvirka skráningu á fjölda gesta á ferðamannastöðum. Með þar til gerðum teljurum má fá skýra mynd af fjöldanum á tilteknu svæði og upplýsingar um álagstíma innan hvers dags, viku, eða mánaðar svo dæmi sé tekin. Auk þess er hægt að aðgreina skráningar á bílum, hjólum og gangandi umferð.