Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra staðfesti, að veittri umsögn Minjastofnunar Íslands, í dag tillögu um verndarsvæði í byggð á Djúpavogi. Tillagan nefnist „Verndarsvæðið við voginn“.
Er tillagan unnin af TGJ og er fyrsta tillaga um Verndarsvæði í byggð sem tekin er til staðfestingar.
Ritað var undir samkomulagið við Djúpavogshöfn að viðstöddum sveitarstjóra Djúpavogs, Gauta Jóhannessyni, ásamt fulltrúum úr sveitarstjórn. Djúpavogshreppur er fyrsta sveitarfélagið til að ljúka vinnu við tillögu að verndarsvæði í byggð með staðfestingu ráðherra.
Við mat á tillögu Djúpavogshrepps um verndarsvæði í byggð hefur Minjastofnun litið til eftirtalinna þátta: Afmörkunar, verndarsvæðis, gagna sem liggja til grundvallar greinargerð sem fylgir tillögunni, þ.m.t. fornleifaskráningar, húsakönnunar, mats á varðveislugildi og skilmála um verndun og uppbyggingu innan marka verndarsvæðisins.
Í umsögn Minjastofnunar segir: „Tillaga sveitarstjórnar Djúpavogshrepps að verndarsvæði í byggð er að mati Minjastofnunar að öllu leyti vel unnin og gerir skilmerkilega grein fyrir öllum þeim þáttum sem áskildir eru. Að baki tillögunni liggur vönduð og ítarleg menningarsöguleg úttekt á byggðinni við Voginn. Afmörkun svæðisins er vel rökstudd og tekur mið af staðháttum og sögulegum sérkennum byggðarinnar.
Skilmálar um vernd og uppbyggingu innan verndarsvæðisins eru greinargóðir og til þess fallnar að markmið tillögunar um verndun og svipmót hinnar sögulegu byggðar nái fram að ganga,”